Markmið Oddfellowreglunnar

Aðalmarkmið og jafnframt boðskapur Oddfellowreglunnar birtist í eftirfarandi orðum:

“Vér bjóðum yður að vitja sjúkra, líkna bágstöddum, jarða framliðna og veita munaðarlausum fóstur”.

Hafa ber í huga að árið 1819, við stofnun þess meiðs Reglunnar er Oddfellworeglan á Íslandi tilheyrir, ríktu allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en við þekkjum nú. Á þeim tíma lét Reglan til sín taka í mannúðar- og líknarmálum eins og hún gerir enn í dag og er hún því í eðli sínu líknarsamtök. Um málefni sem Reglan og félagar hennar hafa beitt sér fyrir má lesa í kaflanum um líknarsjóð.

Allt innra starf Reglunnar byggir á vestrænni siðfræði og því er Oddfellowreglan einnig mannræktarsamtök í þess orðs fyllstu merkingu. Enginn getur gerst félagi Reglunnar nema hann trúi á eina æðstu veru sem skapað hefir heiminn og heldur honum við. Oddfellowreglan kennir félögum sínum að bera virðingu fyrir hugsjónum Reglunnar og hvetur þá til að bæta sjálfa sig og umhverfi sitt. Um markmið og innra starf má lesa í kaflanum um Markmið og Fundi.