Áform um friðlýsingu Urriðakotshrauns

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa, sem er landeigandi, kynnir hér með áform um friðlýsingu Urriðakotshrauns í Garðabæ, í samræmi við 52. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann snemma á nútíma fyrir um 8100 árum. Hraunið er svokallað klumpahraun og er jaðar þess uppbelgdur og úfinn. Í hrauninu eru sveigðir hryggir á yfirborði og úfnir hraukar við jaðrana. Nokkuð er um hraunhella og kallast þeir Selgjárhellar og Maríuhellar. Heitir hraunið Smyrlabúðarhraun við Selgjá og frá Selgjá að Maríuhellum heitir hraunið Urriðakotshraun. Hraunið nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Býr svæðið yfir fjölbreyttum náttúruminjum og í því felast miklir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Innan svæðisins liggja göngu- og reiðstígar. Friðlýsingin er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tilkynning frá Umhverfisstofnun 

Heimasíða Umhverfisstofnunar