Stórstúkuþing Noregs

Morten Buan
Morten Buan
22. reglulegt þing Stórstúku Noregs var haldið á Clarion hótelinu við Gardermoen flugvöllinn í Ósló, dagana 11. – 13. júní.

Þingið sátu kjörnir og skipaðir embættismenn Stórstúkunnar, fyrrum stórsírar, fyrrum Rebbekkuráðsforsetar, stórfulltrúar stúkna og búða, fulltrúar nefnda ásamt sérstaklega boðnum erlendum gestum frá norðurlöndunum og Bandaríkjunum.

Fyrir þingið voru lögð fjölmörg mál.  Stefnumótun til næstu fjögurra ára var lögð fram og samþykkt.  Lögð er áhersla á fjölgun í Reglunni og er markmiðið að Oddfellowar í Noregi verði 1% af þjóðinni.  Þá er lögð áhersla á að auka gæði starfsins og þekkingu Reglusystkina á gildum og markmiðum Reglunnar og að styrkja allt innra starf. Mikilvægt  er talið  að gera Regluna sýnilegri almenningi. 

Á þinginu var kjörin ný stórstúkustjórn og var br. Morten Buan kjörinn stórsír og settur inn í embættið.

Síðasta embættisverk br. Harald Thoen í embætti stórsírs var að sæma str. varastórsír Árnýju J. Guðjohnsen og fyrrum stórmeistara Hástúkunnar í Bandaríkjunum, br. Harry Lohman æðsta heiðursmerki Norsku Oddfellowreglunnar.  

Í ræðu norska stórsírsins við það tilefni kom fram að str. Árný  hafi unnið ómetanlegt starf fyrir Oddfellowregluna á alþjóðavettvangi,  m.a. sem ritari í Evrópusamtökum Oddfellowa (European Federation) og ritari Alþjóðaráðs Oddfellowa (International Council). Hún hafi tekið  virkan þátt í undirbúningi og stofnun Stórstúku Evrópu (GLE), þar sem hún hefur gegnt embætti str. varastórsírs frá stofnun árið 2007.   Hann þakkaði fyrrum stórmeistara Hástúkunnar í Bandaríkjunum, br. Harry Lohman fyrir mikinn velvilja og stuðning við Regluna í Evrópu, sem hefði gert stofnun Stórstúku Evrópu mögulega.

Við  hátíðarkvöldverð þingsins voru haldnar margar ræður þar sem fráfarandi stórsír br. Harald Thoen voru færðar  þakkir  fyrir störf hans sem stórsír í níu ár. Það fer ekki á milli mála að br. Harald Thoen hefur verið ótrúlega afkastamikill og farsæll í störfum sínum.  Eitt fyrsta verkefni hans var að sameina bræður og systur í eina stórstúku, sem hefur verið til mikilla bóta fyrir Reglustarfið í Noregi og eru Svíar að hugleiða  að fara sömu leið.  Þá var hann einn af frumkvöðlum að stofnun Stórstúku Evrópu og gegnir  nú embætti stórsírs Evrópu.  Hann hefur gegnt lykilhlutverki í samstarfi norrænna stórsíra og kom fram í máli stórsíra norðurlandanna að hann hefur verið þeim góð fyrirmynd og ráðgjafi.

Br. Harald voru færðar fjöldamargar gjafir af  þingfulltrúum og hinum norrænu og bandarísku gestum.

Stórsír Íslands færði honum  gjöf frá Reglusystkinum á Íslandi, sem var falleg og hlý íslensk lopapeysa, sem tákn um hlýhug, þakklæti og þá virðingu sem við íslenskir Oddfellowar berum til þessa farsæla forystumanns í Reglunni.    

Lesa má um þinghaldið og skoða myndir á vef norsku Oddfellowreglunnar http://www.oddfellow.no/