Ábyrgð félaga

Oddfellowreglan leggur félögum sínum á herðar:

  • Að kynna grundvöll vináttu, kærleika og sannleika meðal manna.
  • Að styrkja þá og aðstandendur þeirra í trúnni á eina æðstu veru.
  • Að sérhver einstaklingur geti, í samræmi við hæfni sína, lagt sitt af mörkum til þess að hjálpa náunga sínum, til betra og farsælla lífs.
  • Að kenna þeim að orðin tóm nægja ekki.

Þetta eru markmið sem enginn getur náð öðruvísi en að bæta fyrst sjálfan sig, með stuðningi félaga sinna í Reglunni. Á fundum leitum við leiða til þess að vinna sem best að markmiðum Reglunnar og einingu meðal félaga hennar. Á fundum er ekki rætt um trúmál eða stjórnmál, því að það eru slík mál sem valda sundrungu.

Fyrrgreind markmið byggja á þeim siðferðilegu lífsviðhorfum sem stofnendur Reglunnar töldu vera mikilvægan þátt í starfi hennar. Að beina sjónum ekki aðeins að efnislegum gæðum heldur einnig siðferðilegum. Ekki er nægilegt að félagar í Reglunni líti á siðfræði hennar einungis sem kenningar. Þeir eiga að lifa og starfa samkvæmt henni. Daglegt líf á að einkennast af þeirri siðfræði. Félagar í Oddfellowreglunni eiga að þekkjast af framkomu þeirra og viðmóti. Styrkur Oddfellowreglunnar liggur í þeirri vitund Reglufélaga að sýna bróðurog systurþel í vináttu, kærleika og sannleika.