Vífilstaðir voru Hús vonarinnar

Þegar komið er til Vífilsstaða blasir við minnisvarði á hlaðinu, skáhallt út af inngangi aðalbyggingarinnar. Þrír myndarlegir stuðlabergsdrangar sem standa á traustum grunni og tengdir eru saman með sterklegri keðju. Á grunnpallinum við drangana er lítil plata með eftirfarandi áletrun:

„1906 Heilsuhælisfélagið. BERIÐ HVER ANNARS BYRÐAR. Heilsuhælisfélagið var stofnað 19. nóvember 1905 að forgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis og félögum hans í Oddfellowstúkunni Ingólfi. Mikil og almenn samstaða var meðal þjóðarinnar um þetta verkefni. Fjórum árum síðar þann  5. september 1910 var Vífilsstaðahælið vígt. Vífilsstaðahælið 1910.“

 

Vífilstaðir voru Hús vonarinnar
Fleiri myndir frá verkefninu

Umrætt minnismerki var afhjúpað 5. september 2010. Að baki voru 100 ár sem hafa að geyma merkilega sögu. Ekki aðeins þeirra sem sóttu einu lífsvon sína til Vífilsstaðahælisins og stórmerkilegrar framsóknar læknavísindanna sem tókst um síðir að sigrast á hinum hvíta dauða. Það geymir líka sögu um afreksverk fámenns félagsskapar sem hrinti baráttunni við veikina af stað og byggði það hús sem var á sínum tíma táknmynd þess að íslenska þjóðin var að rísa úr öskustónni og gat unnið stórvirki ef hver og einn var tilbúinn að „bera hvers annars byrðar“ – leggja sitt af mörkum.

Þegar leið á nítjándu öldina tóku berklar, líkt og holdsveikin, að stigmagnast á Íslandi. Þótt skyldleiki væri um orsakir þessara sjúkdóma var birtingarmynd þeirra gjörólík. Þegar holdsveiki herjaði á fólk leyndi það sér ekki. „Sár og kaun og benjar holdið hrjá.“ Berklar læddust að fólki. Fólk vissi ekki hvort það hafði tekið veikina. Hún var í byrjun sársauka- og einkennalítil. En þegar fólk fékk hósta og uppgang úr lungum var líklegt að voðinn væri vís. Þegar svo bar við leitaði fólk oftast til læknis og var mörgum þeirra minnisstæður sá ótti sem þeir sáu í augum sjúklinganna meðan þeir voru skoðaðir og dómsins beðið. Berklasmitun jafngilti í flestum tilvikum dauðadómi. Og það var ekki eldra fólk sem var útsett fyrir berklum. Þvert á móti lagðist veikin hvað harðast á fólk sem var í blóma lífsins og átti ævistarfið framundan. Og fátt var til varnar. Helst það að reyna að koma sjúklingunum í sem mesta einangrun og koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra, því berklar voru bráðsmitandi og gerðu engan greinarmun á kotkörlum og höfðingjum.

Berklaveikin hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Hippokrates sem uppi var á 5. öld f.Kr. og talinn er faðir læknavísindanna, þekkti veikina, lýsti henni og sagði hana verða fleirum að bana en nokkuð annað. Það var hins vegar ekki fyrr en á nítjándu öld sem franska lækninum Villemin tókst að sanna að baktería sú sem olli veikinni bærist á milli manna og um svipað leyti tókst öðrum vísindamanni, Robert Koch, að finna bakteríuna sem fékk nafnið bacillus tuberculosis.