Sagan

Upphaf Oddfellowreglunnar

Talið er að nafnið „Odd Fellow“ eigi rætur að rekja aftur til tíma Rómverja. Á miðöldum var reistur fjöldi stórbygginga í Evrópu, kirkjur, klaustur og hallir. Byggingastarfið var aðallega í höndum ófaglærðra farandverkamanna. Á þessum tíma ríkti almennt öryggisleysi sem einkenndist af pólitískum og trúarlegum ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Með það að markmiði að vernda sjálfa sig stofnuðu verkamennirnir leynifélög, en hlutverk þeirra var að veita hjálparhönd þar sem neyðin var stærst. Til þess að koma í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar gætu þrengt sér inn í hóp þeirra notuðu þeir inngangsorð og merki.

Á 17. öld, þegar félög þessi hófu að festa rætur í Englandi, voru þau kölluð „stúkur“. Brátt kom að því að þau urðu grundvöllur þess, sem síðar varð Oddfellowreglan.

sagan

Frá Englandi barst hreyfingin með innflytjendum til Bandaríkjanna. Stofnandinn var breskur innflytjandi Thomas Wildey sem flust hafði búferlum frá Englandi. Hann og fjórir aðrir bræður, sem einnig höfðu flust frá Englandi, stofnuðu fyrstu stúkuna þar „Nr. 1, Washington“, í Seven Stars veitingahúsinu í Baltimore 26. apríl 1819. Oddfellowreglan á Íslandi er grein af hinni bandarísku.

Framsýnn bróðir Schuyler Colfax, síðar varaforseti Bandaríkjanna, átti svo frumkvæði að því árið 1851 að stofna kvennastúkur innan Oddfellowregl-unnar. Nefnast þær Rebekkustúkur.  Úr þessum jarðvegi óx Reglan síðan og dafnaði hratt, ekki bara í Banda-ríkjunum heldur einnig í fjölda annarra landa. Félagar í Reglunni eru nú um 500 þúsund systur og bræður víðs vegar í heiminum.

„Oddfellow“ þýðir í raun „sérstakur maður“. Samkvæmt málsögunni þýðir „Odd“ eitthvað mjög sérstakt. Einnig má þýða það sem „Oath“, þ.e. „eiðsvarinn“. Orðið „Fellow“ þýðir félagi eða vinur. „Odd Fellow“ táknar því „eiðsvarinn - sérstakur vinur“.

Oddfellowreglan á Íslandi

Fyrsta Oddfellowstúkan á Íslandi, st. nr. 1, Ingólfur, var stofnuð 1. ágúst 1897.

Aðdragandi stofnunar Reglunnar hér á landi var sá, að danskir Oddfellowar tóku sér fyrir hendur að reisa sjúkrahús fyrir holdsveika í Laugarnesi við Reykjavík, en þá var holdsveiki nokkuð útbreidd í landinu og mikill vágestur. Innan Reglunnar starfa bræðrastúkur og systrastúkur. Bræðrastúkurnar eru 28  og Rebekkustúkurnar 18. Yfirstjórn Reglunnar er í höndum Stórstúkustjórnar, en æðsti yfirmaður Reglunnar er stórsír.

Stórstúkan er löggjafarþing Reglunnar. Í henni eiga sæti fulltrúar allra stúknanna í landinu. Oddfellowheimilin á Íslandi eru 9 talsins sem reglusystkini og aðstandendur þeirra hafa afnot af.