Baráttan við holdsveikina - Holdveikispítali í Laugarnesi - Gjöf danskra Oddfellowa

Af öllum þeim sóttum sem hrjáð hafa mannkynið frá örófi alda hefur holdsveikin löngum þótt skelfilegust, enda valin nöfn sem gefa til kynna hvað beið þeirra er hana tóku. Birtingarmynd sjúkdómsins var tvennskonar: Annars vegar rotnaði hold sjúklinga eins og á líkum og voru þeir kallaðir líkþráir og hins vegar féllu útlimir fólks eða hluti þeirra af í lifanda lífi og var veikin þá kölluð limafallssýki. Holdsveikir voru hinir óhreinu og þeir voru víðast útskúfaðir úr samfélagi manna. Þeim var gert að skyldu að koma sér fyrir á afviknum stöðum og voru algjörlega háðir því sem aðrir réttu að þeim meðan þeir biðu dauða síns. Ekkert gat orðið þeim til lækninga nema kraftaverk á borð við það sem Jesú gerði á hinum líkþráa og lýst er í Biblíunni. Víða voru holdsveikisjúklingar kallaðir spillingar og þeim var gert að klæðast sérstökum kuflum og bera með sér bjöllu eða hrossabrest og láta þannig vita ef þeir nálguðst ósýkta.

 

Baráttan við holdsveikina - Holdveikispítali í Laugarnesi - Gjöf danskra Oddfellowa
Fleiri myndir frá verkefninu

Aðkoma danskra Oddfellowa að byggingu Holdveikispítala í Laugarnesi

 

Úr sögu Styrktar- og Líknarsjóðs "Traustir hlekkir"

Þar sem teikningar af spítalanum lágu fyrir var hægt að hefjast handa strax og gengið hafði verið frá formsatriðum. F. Bald var ráðinn yfirsmiður og tók hann með sér flokk 40 smiða frá Danmörku, auk þess sem margir Íslendingar störfuðu við bygginguna. Grind hússins var unnin í Svíþjóð og kom til landsins í apríl 1898. Rösklega var tekið til hendinni við bygginguna og reis húsið og varð fokhelt á tveimur mánuðum. Grunnflötur þess var 750 fermetrar, 7.770 rúmetrar og kjallarinn var 2.100 rúmmetrar. Spítalinn var því eitt stærsta húsið á Íslandi á þessum tíma og raunar enn þann dag í dag stærsta timburhús sem byggt hefur verið hérlendis.

 Laugarnesspítalinn var á tveimur hæðum með risi og steyptum kjallara. Á hvorri hæð voru tíu herbergi, þrjár forstofur og breiðir gangar en í risinu voru átta herbergi fyrir starfsfólk og þar voru einnig tvö eldhús. Auk sjúkraherbergjanna voru stórar borðstofur á báðum hæðum, önnur fyrir karla og hin fyrir konur. Á hæðunum voru einnig lækningaherbergi og vinnustofur.

 Við vestur- og austurgafl voru tvær byggingar sem gengu þvert á aðalbygginguna en náðu lengra fram. Í þeim voru tvö herbergi á hvorri hæð og fjögur á efsta loftinu. Á miðri aðalbyggingunni var forskáli þar sem aðalinngangurinn var  og við miðja norðurhlið hússins var reist útbygging þar sem m.a. var eldhús og línherbergi stofnunarinnar, þvottahús og sérstök aðstaða til vatnshitunar. Kjallarinn var hólfaður í sundur með múrsteinsveggjum og þar var gólfið steinsteypt en gólf milli hæða var alls staðar haft tvöfalt. Öll timburklæðning hússins var þreföld og einangrun var milli laga. Þak hússins var klætt járn.

Húsvígslan

Hinn 27. júlí 1898 var húsið vígt þótt það yrði ekki fullbúið til að taka við sjúklingum fyrr en um haustið. Vígsla hússins var í tengslum við tuttugu ára afmæli Oddfellowreglunnar í Danmörku og raunar liður í hátíðahöldum af því tilefni. Komu nokkrir af æðstu embættismönnum Reglunnar í heimsókn til Íslands af þessu tilefni og skipulagði dr. Petrus Beyer stórsír vígsluathöfnina og annaðist sjálfur helstu atriði hennar.

 Mikið var um dýrðir og má segja að flestir Reykvíkingar sem vettlingi gátu valdið hafi lagt leið sína í Laugarnes. Blaðið Ísafold sagði svo frá:

 „Athöfnin hófst kl. 5 síðdegis. En næstu klukkustundina á undan lá við að mannstraumurinn væri óslitinn frá Reykjavík inn að Laugarnesi, sumir óku í vögnum, aðrir voru á gæðingum sínum, enn aðrir á hjólhestum, en langflestir auðvitað gangandi. Eigi allfáir höfðu og fengið sér báta og fóru sjóveg. Veður var hið ákjósanlegasta, sólskin og brakandi þerrir með mátulega mikilli golu fyrir þá sem ganga þurftu. Búðum var lokað í bænum og veifa á hverri stöng.