Viðbygging og endurgerð á eldra húsnæði Ljóssins við Langholtsveg 43

Á aðalfundi Styrktar- og líknarsjóðs 10. apríl 2015 var tekin endanleg ákvörðun um að ráðast í þessi verkefni undir nafninu „Oddfellowreglan tekur höndum saman 2015.“ Þá var einnig tilkynnt að framkvæmdaráð sjóðsins hefði skipað þriggja manna verkefnastjórn til að stýra framkvæmdum við viðbyggingu Ljóssins við Langholtsveg. Í hana voru skipaðir Magnús Sædal Svavarsson, Auðunn Kjartansson og Pétur Haraldsson. Jafnframt var ákveðið að byggingarstjórn og faglegt eftirlit yrði í höndum Magnúsar og hönnuða byggingarinnar eftir nánara skipulagi.

 

Viðbygging og endurgerð á eldra húsnæði Ljóssins við Langholtsveg 43
Fleiri myndir frá verkefninu

Eðli málsins samkvæmt lýkur aldrei verkefnum á borð við þau sem Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa vinnur að. Þótt gífurlegar breytingar hafi orðið á íslensku þjóðlífi og efnahag þjóðarinnar í þau sextíu ár sem sjóðurinn hefur verið starfræktur og opinberir aðilar, sveitarfélög og ríkið, annist nú fjölmörg verkefni sem voru brýn úrlausnarefni á fyrstu árum og áratugum sjóðsins þá eru verkefnin óþrjótandi. Svo sem fyrr greinir hefur það verið meginstefna Styrktar og líknarsjóðs Oddfellowa um árabil að vera bakhjarl líknarstarfs Regludeildanna með því að greiða 20% mótframlag til þeirra verkefna sem þær taka sér fyrir hendur. Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel og orðið Regludeildum hvatning til að leggja góðum málefnum lið, auk þess sem það hefur orðið til þess að Styrktar- og líknarsjóður hefur getað vísað frá sér minni styrkveitingum og einbeitt sér að stærri málum. Á því sviði var ýmislegt á döfinni þegar kom að sextíu ára afmæli sjóðsins. Þar ber fyrst að nefna að á árinu 2012 hafði Stórstúka Oddfellowreglunnar frumkvæði að því að hafin yrði könnun á því hvort og þá hvernig Reglan gæti komið að þjóðarátaki í krabbameinsleit með ristilskimun. Var málið lagt fyrir framkvæmdaráð Styrktar- og líknarsjóðs sem samþykkti á fundi sínum 27. janúar 2013 að skipa sérfræðinefnd til ráðgjafar sem skyldi síðan skila „... umsögn til framkvæmdaráðs um með hvaða hætti Oddfellowreglan geti komið að forvarnaraðgerðum við greiningu krabbameins í ristli og endaþarmi með skimun eða speglun og hvernig fjármunum sjóðsins og Regludeilda verði best varið til slíkra verkefna,“ eins og segir í fundargerð sjóðsins frá 20. mars 2014.