Íslensku þjóðinni færð stórgjöf

Á árinu 1969 átti Oddfellowreglan 150 ára afmæli. Þeirra tímamóta minntust Oddfellowar um allan heim með ýmsum hætti en í fæstum löndum var haldið upp á afmælið með miklum veisluhöldum heldur var eitthvert samfélagslegt verkefni styrkt myndarlega. Á Íslandi var það hlutverk Stórstúkunnar að ákveða hvernig haldið yrði upp á afmælið og var ákveðið að nota tilefnið til þess að færa íslensku þjóðinni stórgjöf. Eins og oft áður varð verkefni á sviði heilbrigðismála til umræðu og lögð mikil vinna í að finna út hvað kæmi sér best á því sviði. Hófst undirbúningur þegar á árinu 1967 og áttu forystumenn Reglunnar þá m.a. viðræður við yfirstjórn Landspítalans og heilbrigðisyfirvöld.

 

 Íslensku þjóðinni færð stórgjöf
Fleiri myndir frá verkefninu

Á þessum árum voru krabbameinslækningar á Íslandi nánast á byrjunarreit. Eins og greint er frá á öðrum stað í ritinu höfðu Oddfellowar átt frumkvæði að því að slíkar lækningar hófust hérlendis með stofnun Radíumfélagsins
4. maí 1918 og kaupum á efni sem við þær lækningar var notað. Síðan hafði í raun ekki orðið marktæk breyting hvað varðar geislameðferð krabbameina hérlendis. Á Landspítalanum voru þó til röntgentæki til þess að meðhöndla grunn krabbamein og náðst hafði nokkur árangur á því sviði en þeir sjúklingar sem fengu djúpstæð innvortis mein áttu fárra kosta völ. Á sama tíma hafði orðið mikil framþróun í krabbameinslækningum erlendis. Um miðjan sjötta áratug aldarinnar komu til sögunnar hin svokölluðu cobalttæki sem gerðu það að verkum að unnt var að ná til djúpra vefja líkamans og beina geislum að meinum með öðrum hætti en unnt var með gömlu tækjunum. Í Cobalt tækjum voru notaðar hleðslur af geislavirku kóbalti 60 sem voru 0,5-3 sm í þvermál en geislun frá þeim minnkaði með tímanum og helmingaðist á fimm árum og þurfti þá að skipta um hleðslur í tækinu. Geislun frá þessum tækjum var líka fremur hæg og þurftu sjúklingarnir því að liggja í drjúgan tíma í þeim meðan á meðferðinni stóð. Það þótti einnig ókostur við þessa meðferð að þótt unnt væri að beina geislum á sjálft meinið var afmörkun geislans út til hliðanna ekki takmörkuð sem leiddi til þess að geislun lenti einnig á heilbrigðum vefjum sem lágu að æxlinu.

 Á fyrri hluta sjöunda áratugarins kom svo enn eitt nýtt geislalækningatæki til sögunnar, svonefndur línuhraðall. Með honum eru rafeindir notaðar sem í er rafsegulsvið sem ýmist er skotið beint á meðferðarsvæði í sjúklingum eða breytt í háorkuröntgengeislun þegar slík geislun hentar betur vegna legu æxlis dýpra í líkamanum.

 Á þessum tíma voru Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Krabbameinsfélag Íslands orðin öflug félög. Undir stjórn Bjarna Bjarnasonar, læknis, sem var formaður síðarnefnda félagsins og Gunnlaugs Snædal, sem var formaður Reykjavíkurfélagsins, var hafin barátta fyrir umbótum í krabbameinslækningum. Athyglin beindist fyrst og fremst að því að keypt yrði cobalttæki til landsins. Sá hængur var þó á að tækið var dýrt og ekki var heldur til húsnæði fyrir það.

 Að athuguðu máli innan stjórnar Oddfellowreglunnar var tekin sú stefna að Reglan gæfi íslensku þjóðinni cobalttæki í tilefni afmælisins og hafnar voru viðræður við heilbrigðisyfirvöld um hvernig unnt væri að standa að málum en af hálfu Reglunnar var lögð mikil áhersla á að unnt yrði að koma tækinu í notkun sem allra fyrst