Oddfellow bræður og systur

Við störfum í regludeildum sem við köllum bræðrastúkur, Rebekkustúkur..  Einkunnarorð okkar eru:

VINÁTTA
KÆRLEIKUR
SANNLEIKUR

 Fundir í stúkum eru haldnir reglulega þar sem við fylgjum ákveðinni dagskrá og siðareglum. Utan funda er stundað öflugt félagsstarf sem er mismunandi á milli stúkna.

 VINÁTTA

Á meðal Oddfellowa ríkir sönn vinátta. Við vinnum stöðugt að því að rækta okkur sjálf og bæta með stuðningi hvers annars.

Við hittumst fyrir og eftir stúkufundi og spjöllum saman um daginn og veginn. Eftir fundi eru bornar fram veitingar og oft flutt fræðslu- eða skemmtiefni.

Utan funda hittumst við reglulega og gerum okkur glaðan dag saman. Skemmtikvöld eru mörg og mismunandi á milli regludeilda.

Makar okkar, börn og barnabörn taka oft virkan þátt í félagslífinu og stundum er vinum og ættingjum boðið með á skemmtikvöld.

Mörg okkar hafa eignast sína bestu vini í Oddfellowreglunni.

  

KÆRLEIKUR

 Með kærleikann að leiðarljósi vinnum við að velferð í samfélaginu og látum gott af okkur leiða án þess að vænta nokkurs í staðinn.

 Við leggjum okkar af mörkum til samfélagsins með fjárstyrkjum, vinnuframlagi, gjöfum og félagslegum stuðningi við sjúka og aldraða.

 Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa er sameiginlegur sjóður sem hefur veitt myndarleg framlög til líknarmála.

 

SANNLEIKUR

 Sannleikur skapar traust á milli manna. Í Oddfellowreglunni reynum við að vera heiðarleg og sannorð í orði og verki. Við viljum gera allt af heilum hug.

 Sú krafa er gerð til allra Oddfellowa að sannleikurinn setji slíkt mark á persónu okkar, að orðum og gjörðum Oddfellowa megi treysta.