Hamingjulyfta við Háaleitisbraut

 „Gjöf Oddfellowa er jafngildir himnasendingu. Við erum í hamingjukasti yfir því að fá nýja og fína lyftu í húsið sem skiptir svo miklu máli fyrir skjólstæðinga, gesti, starfsfólk og starfsemina yfirleitt!“

Hamingjulyfta við Háaleitisbraut
Fleiri myndir frá verkefninu

Þannig komast heimamenn að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík að orði um ákveðin tímamót sem eru að verða hjá þeim. Í 200 ára afmæli Oddfellowreglunnar í apríl 2019 var húsfélaginu þar afhent gjafabréf upp á allt að 7 milljónir króna til að kaupa og setja upp lyftu í húsið. Þarna eru undir sama þaki mörg samtök og félög sem sinna velferð barna og fjölskyldna þeirra (sjá meðfylgjandi ljósmynd úr anddyrinu).

Gjöfin kom sér nú aldeilis vel því húsfélagið stóð frammi fyrir því að Vinnueftirlitið myndi banna notkun húslyftunnar. Sú var komin til ára sinna og slitin eftir því, stoppaði milli hæða eða hreyfðist ekki úr stað. Lyftan var með öðrum orðum síbilandi og raunar orðin hættuleg að nota.

Húsfélagið átti ekki fjármuni til að skipta um lyftu en þá komu Oddfellowar til skjalanna og minntust merkra tímamóta í eigin sögu með því að gefa lyftu í húsið að meðtalinni uppsetningu.

Ráðgert var að ljúka framkvæmdum í sumar en það tókst ekki. Keypt var lyfta en hún reyndist ekki passa almennilega í rýmið sem henni var ætlað. Önnur minni var þá fengin í staðinn og hún verður að vonandi tekin í gagnið núna fyrstu daga septembermánaðar.

Og þvílík ánægja sem ein lyfta getur fært starfsmönnum og gestum í húsi! Til að mynda hefur einn starfsmaðurinn á fjórðu hæð ekki getað mætt til starfa undanfarnar vikur vegna þess að hann er háður lyftu til að komast á vinnustaðinn sinn. Margir sem erindi eiga í húsið eiga líka erfitt með að nota stiga, eins og að líkum lætur. 

 

Sannkölluð hamingjulyfta við Háaleitisbraut og margir þar innan dyra hugsa sérlega hlýtt til Oddfellowreglunnar nú um stundir.