Afhending styrks úr Búverðlaunasjóði Staðarsveitar

Var þetta
í þriðja sinn sem Stórstúkustjórn fer vestur til að afhenda styrkinn sem hefur verið afhentur fyrir tvö ár í senn. Fyrsta ferðin
var í júní 2004, síðan í júní 2006 og loks nú í september 2010. Síðast þegar styrkurinn var afhentur,
árið 2008, komu sveitungar Staðarsveitar, sem voru á ferðalagi um Reykjanes, í Oddfellowhúsið við Vonarstræti þar sem
Stórstúkustjórn tók á móti þeim og afhenti styrkinn formlega . Eftir því sem best er vitað eru þessi persónulegu
samskipti við afhendingu styrksins nýlunda og hefur það verið sérstaklega ánægjulegt að heyra hve vel styrkir úr
Búverðlaunasjóði Staðarsveitar hafa komið sér fyrir sveitafélagið sem nýtir þá einkum til kaupa á
landbúnaðarvélum. Telja stjórnarmenn Búnaðarfélags Staðarsveitar það fullvíst að Staðarsveit hafi verið ein best setta
sveit landsins áratugum saman hvað þetta varðar.
Stjórnarmenn Búnaðarfélags Staðarsveitar tóku á móti Stórstúkustjórn
í Gistihúsinu Langaholti en þau voru Ragnhildur Sigurðardóttir, Þóra Kristín Magnúsdóttir og Bjarni Einarsson en tveir
stjórnarmanna áttu ekki heimangengt.
Búverðlaunasjóður Staðarsveitar á sér sérstaka sögu. Hann var stofnaður með gjafabréfi dags. 20. maí 1936 af Jóni Sveinssyni, trésmið, sem var bróðir í St. nr. 1, Ingólfi og fól hann stjórn Lands-Stórstúku Íslands, I.O.O.F., að annast sjóðinn og er það greinilegt að hann sem Oddfellowi hefur best treyst Reglunni til að halda utan um sjóðinn og varðveita. Br. Jón var fæddur í Staðarsveit og bjó þar fram til 23 ára aldurs. Hann var óvenju víðförull maður og víðsýnn og hefur greinilega haft mjög sterkar taugar til átthaganna.