Björk og Hrafnkell Freysgoði

Egilsstaðir
Egilsstaðir
Nú þegar þetta er skrifað eru rétt um eitt ár liðið frá því að Stórstúka hinnar óháðu Oddfellowreglu á Íslandi I.O.O.F. heimilaði stofnun  Rebekkufélagsins Bjarkar og Oddfellowfélagsins Hrafnkels Freysgoða á Fljótsdalshéraði.

 Aðdragandinn að stofnun félaganna var ekki ýkja langur, um það bil 2 ár ef miðað er við fyrstu kynningarfundina sem haldnir voru á Egilsstöðum.  Á þeim kynningarfundum kom fljótlega í ljós að góður jarðvegur var nú á Austurlandi fyrir Oddfellowregluna að nema þar land og brátt var kominn hópur systra og bræðra sem ákvað að óska eftir því að gerast félagar í Oddfellowreglunni.

Nöfnin BJÖRK og HRAFNKELL FREYSGOÐI hafa sterka skírskotun til íbúa á Fljótsdalshéraði.  Björkin er einkennisplanta í skógum á Héraði og þekur æ stærra svæði bæði þar og annars staðar þar sem markvisst er unnið að skógrækt.  Hrafnkell Freysgoði er sögupersóna frá landnámstíð og þekkt er sagan um hann, Hrafnkela, og gaman til þess að vita að fræðimenn hafa fundið fjölmarga af þeim sögustöðum sem í sögunni eru nefndir.

Haustið 2008 vígðust systur og bræður inn í margar regludeildir víðs vegar um landið.  Þessi fyrsti hópur lauk svo skrefum sínum hjá stúkunum á Akureyri í marsmánuði 2009.

Síðan þá, þ.e. í marsmánuði 2009 hafa Akureyrarstúkurnar verið leiðandi í því að aðstoða okkur við allan undirbúning að því að stofna stúkurnar.  Á þessu vori bættust 10 systur í hóp þeirra sem fyrir voru og 7  bættust í hóp bræðranna, en Akureyrarstúkurnar sáu alfarið um þennan hóp.

Nú er svo komið að einungis vantar herslumuninn á að nægilegur fjöldi sé meðal bræðra og systra til þess að hægt sé að stofna stúkurnar.  Allt bendir til þess að það verði gert í haust og húsið okkar á Egilsstöðum tekið í notkun og vígt á sama tíma.

Þegar kom að húsnæðismálunum voru nokkrir kostir skoðaðir, en alltaf kom upp sú spurning hvort rétt væri að byrja á kaupum.  Niðurstaðan varð sú að tekið yrði á leigu húsnæði til að byrja með og þar réð fyrst og fremst það sjónarmið að ekki væri ráðlegt að fara af stað með starfið ef húsnæðisþátturinn yrði svo íþyngjandi fyrir okkur vegna kostnaðar að ekki yrðu nægir kraftar í starfið sjálft.  Niðurstaðan varð því sú að taka á leigu húsnæðið að Lyngási 11 á Egilsstöðum, til 5 ára.  Húsnæðið er 153 fermetrar að stærð.

Strax varð ljóst að framkvæma þyrfti nokkuð í húsnæðinu, en að mörgu leiti hentaði það okkur vel þar sem sambærileg starfsemi hafði áður verið í því.

Það var br. Magnús Ólafsson á Akranesi sem fór í það fyrir okkur að hanna og teikna breytingar á húsnæðinu og tel ég á engan hallað þó fram komi að hann hefur verið okkur ómetanleg aðstoð við verkið.  Komið nokkrar ferðir austur, leiðbeint og unnið fyrir okkur allan tímann.

Svo var hafist handa við breytingar og endurbætur á húsnæðinu og hefur það gengið vel, þó verkið hafið tekið lengri tíma en áætlað var í byrjun.

Nú er framkvæmdir langt komnar og áætlað er að ljúka verkinu fyrir lok ágúst.

Undir sérstökum lið á síðunni okkar verður sagt nánar frá framkvæmdunum  og birtar myndir úr húsinu.

Það hefur verið ævintýri líkast að taka þátt í þessu landnámi Oddfellowreglunnar á Fljótsdalshéraði og ómetanlegt að finna þann góða anda sem skapast hefur í hópi systra og bræðra á Héraði.  Þarna eins og annars staðar þar sem Oddfellowreglan starfar koma saman einstaklingar með ólíkan bakgrunn, einstaklingar sem lítið þekktust innbyrðist, en eiga það sameiginlegt að falla vel hugsjónir Oddfellowreglunnar og langa til að starfa í anda einkunnarorðanna – vinátta, kærleikur og sannleikur.

Fjölmörgum ber að þakka fyrir stuðninginn hingað til, við vitum að bræður og systur í öllum stúkum eru boðin og búin að leggja okkur lið áfram til þess að stúkustarfið okkar fari farsællega af stað og til þess að við getum orðið Oddfellowreglunni á Íslandi til sóma og mikilvægur hlekkur í því góða starfi sem þar er unnið.  En á enga er hallað þó þakkir okkar beinist fyrst og fremst að stjórn Stórstúkunnar, ómetanlegt er að finna hvatningu þeirra og vita af leiðsögn þeirra.

Gert á Fljótsdalshéraði í júnímánuði 2010.

Ágústa Björnsdóttir, formaður hússtjórnar Oddfellowhússins á Egilsstöðum

Lára G. Oddsdóttir, formaður Rebekkufélagsins BJARKAR I.O.O.F.

Ríkharður Sigurjónsson, formaður Oddfellowfélagsins HRAFNKELS FREYSGOÐA