Dagur Breiðfylkingunnar.

Laugardagurinn 21. janúar 2012 er annar dagur í  Þorra og samkvæmt almanakinu miður vetur.  Þegar elnaði að degi rann upp einn fegursti dagur þessa vetrar.  Einni og hálfri stund fyrir birtingu var vaskur hópur manna komin að verkum í húsum  Líknardeildarinnar og nú hálfu fleiri en fyrri laugardag, eða um 60 manns.  Vopnað sleggjum, kúbeinum, brotvélum og hverskyns öðrum tólum réðst sá harðsnúni her sem hér var kominn til atlögu án tafar og sótti fram í breiðfylkingu.  Nota verður tungutak  Heljarslóðarorustu ef leita á samlíkinga um framgöngu fylkingunnar.

 

 

 

Sérstaka athygli vakti harður kjarni úr hinni nýju stúku  Jóni forseta, sem sönnuðu að en rísa  Suðurnesjamenn undir því sem um þá hefur verið kveðið og eru jafn vaskir á sjó sem landi.

 

 

Aðrir lágu heldur ekki á hlut sínum.  Varð verkefnisstjórnin að hafa sig alla við í því að mæla fyrir um nýja verkþætti svo hratt gekk verkið fram.  Tvívegis var gengið að veisluborði þeirra  Rebekkusystra og var þar ekki skorið við nögl.

 

 

Í lok dagsins er staðan þessi :

 

 

1.  Öllu rifi í húsi nr. 9 lokið og úrgangi komið í gáma.  Þar með brotinn hlaðinn milliveggur.
2.  Lyfjaskápur tekinn niður og settur upp á nýjum stað, sem er fyrsta verk í uppbyggingu.
3.  Allir hlaðnir milliveggir í tengibyggingu brotnir niður og úrgangur í gáma.
4.  Rifin vörulyfta og stigahandrið úr stáli.
5.  Öll plasteinangrun fjarlægð og fargað af steyptri loftaplötu í tengibyggingu..
6.  Hús nr. 8 var bókstaflega hreinsað út.  Það er allar hurðir teknar úr götum,allir milliveggir    úr tré rifnir og allir hlaðnir milliveggir sem vitað var að ætti að brjóta voru fjarlægðir, ásamt skápum hreinlætistækjum, baðkari, lömpum, loftristum í veggjum og loftum og hverskyns öðrum innréttum  og tilfæringum.

 

 

Aðgerðaráætlun næstu helgar er í vinnslu hjá verkefnisstjórn og verður send tengiliðum við fyrsta tækifæri.

 

 

 

Í umboði verkefnisstjórnar
Magnús Sædal  Svavarsson, formaður