Frá stjórn Stórstúku Íslands I.O.O.F. – Upphaf Reglustarfs haustið 2020

Kæru systur og bræður.

Nú liggur fyrir að ekki verður gripið til hertra aðgerða stjórnvalda að sinni í baráttunni við Covid 19 umfram það sem áður hefur verið boðað.  Enn ber að viðhalda tveggja metra reglunni í starfi sem okkar. Þeim reglum sem stjórnvöld hafa gefið út ber að fylgja í einu og öllu.  Við félagar í Oddfellowreglunni göngum á undan með góðu fordæmi og förum að öllum tilmælum okkur sjálfum til varnar og þeim sem eru í okkar umhverfi.

Starfið í Oddfellowreglunni á þessu hausti hefst frá og með 15. ágúst eins og áður hefur verið boðað. Það er þó ákvörðun hverrar Regludeildar hvenær starfið hefst á tímabilinu 15. ágúst til 15. september, en flestar Regludeildir hafa gefið út dagskrár og Stórstúkustjórn hvetur Regludeildir til að halda sig við sín fundar- og starfsáform.

Starfið framundan er algjörlega háð okkur sjálfum og að við finnum leiðir til að halda fundina okkar. Yfirmenn Regludeilda og forsvarsfólk Regluheimilanna skipuleggja starfið miðað við þær skorður sem okkur eru settar. Við berum sjálf, hvert og eitt, ábyrgð á því að fara eftir þeim reglum sem settar eru í okkar samfélagi.

Það er álit Stórstúkustjórnar að mjög mikilvægt sé að halda Reglustarfinu áfram með tilliti til sóttvarna í landinu. Verum með jákvæðni að leiðarljósi og finnum lausnir. Samkvæmt fréttum þurfum við að lifa með þessu ástandi enn um sinn og mikilvægt er að við verðum sveigjanleg meðan þetta ástand varir.

Við í stjórn Stórstúkunnar og Skrifstofustjóri Oddfellowreglunnar munum eftir fremsta megni kappkosta að svara fyrirspurnum sem berast varðandi Reglustarfið framundan.

 

Um leið og koma ný tilmæli yfirvalda eða aðstæður breytast í þjóðfélaginu sem hafa áhrif á starfið okkar mun Stórstúkustjórn gefa út nýjar leiðbeiningar eða tilmæli.