Fréttir af nýbyggingu í Urriðaholti í byrjun apríl 2024.

Hugmynd arkitekta
Hugmynd arkitekta

Vinningstillaga arkitektanna hjá Krads ehf. og Trípólí ehf. var kynnt á Stórstúkuþinginu í maí 2023. Samningur við þá um að teikna Oddfellowhúsið í Urriðaholti var undirritaður þann 26. október sl.

Unnið hefur verið samkvæmt samningnum við að útfæra vinningstillöguna. Húsið hefur m.a. verið sett upp í staðlaðar módúleiningar sem einfaldar hönnunarferlið. Að mörgu hefur þurft að hyggja.

Yfirfara þurfti fyrirkomulag loftræstinga, burðarþol hefur verið yfirfarið og skoðað hvernig burðarvirki hússins verður útfært, hvar þurfa að vera burðarveggir og þess háttar.

Lyftumál hafa verið yfirfarin og bílastæði í kjallara nánar útfærð. - Hljóðvist yfirfarin. Sérstaklega hefur verið skoðaður sá hluti hússins sem fyrstu árin kemur til með að verða boðinn til útleigu.

Unnið hefur verið að því m.a. að útfæra glugga og útveggjaklæðningar auk þess sem brunahönnunarmál hafa verið vandlega skoðuð og flóttaleiðir skilgreindar.

Einnig hefur farið nokkur tími í að kynna tillöguna og skipulagið fyrir skipulagsyfirvöldum og íbúum í hverfinu, til viðbótar því sem áður hafði verið gert vegna fyrirspurna í skipulagsferlinu.

Unnið er eftir verkáætlun og gerir hún ráð fyrir að aðaluppdrættir verði tilbúnir í sumar og hægt verði að hefja jarðvinnu þá. Síðan verður unnið áfram í teikningum og hönnun á þessu ári og nú er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir hefjist um áramótin næstu.

Nú liggur fyrir að ganga frá samningum við byggingastjóra og skipa byggingarnefnd en Byggingarráð sem vann við að undirbúa verkefnið og gerði endanlega þarfagreiningu og undirbjó arkitektasamkeppnina hefur lokið störfum.

Útboð verkfræðihönnunar er á næsta leyti og áætlun um kostnað miðað við endanlega útfærslu hússins liggur fyrir á næstu dögum.

Við undirbúninginn síðustu mánuði hefur Arkis arkitektastofa aðstoðað sérstaklega við að ljúka deiliskipulagsmálum og Verkfræðistofa VSB hefur einnig unnið að undirbúningi fyrir Þróunarsjóð.

Auk stjórnar Þróunarsjóðs hafa setið hönnunarfundi sem hafa verið reglulega haldnir, arkitektarnir Kristján Örn Kjartansson og Guðni Valberg, ásamt bbr. Stefáni Veturliðasyni, Emil Hallgrímssyni og Davíð Einarssyni.