Fundir starfshóps um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu.

Við viljum enn og aftur þakka nefndarfólkinu fyrir frábæra vinnu og afar greinagóðar upplýsingar sem vöktu athygli á kynningarfundunum. Br. Egill Már Guðmundsson kynnti drög að útliti og fyrirkomulagi í nýju Regluheimili en br. Gunnar fór yfir þarfagreiningu og fjármál. Br Ingjaldur Ásvaldsson fór yfir eignir Regludeilda og það góða markmið að við „Byggjum til framtíðar með eigin styrk“

Laugardaginn 22. mars var fundur haldinn í Staðarbergi með Regludeildunum í Hafnarfirði. Rúmlega 50 Reglusystkin mættu til afar eindregins fundar og fóru fram góðar umræður um ný tækifæri og framtíðarlausn húsnæðismála Regludeildanna í Hafnarfirði með aðkomu fleiri Regludeilda, nýrra eða úr Vonarstræti. Það er ljóst að mikill áhugi er á málinu í Hafnarfirði og þegar tillaga var lögð fram í lok fundarins lögðu heimamenn til að gengið yrði lengra með stærð  nýs Regluheimilis en gert var ráð fyrir en Hafnfirðingar vildu að strax verði farið í að byggja Regluheimili með 3 fundarsölum ekki tveimur eins og nefndin hefur þó lagt til. Í lokin var samþykkt tillaga (ályktun) fundarins um það mál og var hún samþykkt mótatkvæðalaust.  Í Hafnarfirði ætla Regludeildir að funda um málið á næstu fundum og taka ákvörðun um framhaldið í málinu.

Sunnudaginn 23. fór síðan fram fundur með Reglusystkinum í Vonarstræti. Þar mætti á annað hundrað manns eða 115 alls. Þar voru þyngri umræður og nokkrir bræður töldu enga þörf á nýbyggingu. Skiptar skoðanir voru um málið eins og eðlilegt er og fór fundurinn vel fram. Í lokin var tillaga (ályktun) um að halda áfram með verkefnið samþykkt af drjúgum meirihluta fundarmanna.

Fram kom á báðum fundunum hvað verkefnið var vel og skipulega kynnt með góðum skýringum og myndum. Nú verður búin til styttri kynning sem send verður öllum stúkum á höfuðborgarsvæðinu sem hægt verður að nota til kynnar á stúkufundum. Það er von okkar sem unnið hafa að verkefninu að nú strax í vor verði ljóst hvort verkefnið verði að veruleika eða ekki. Ef allar stúkurnar í Hafnarfirði verða með þarf ekki nema 1-2 Regludeildir úr Reykjavík til að hægt verði að hefjast handa. Fjöregg Reglunnar er í okkar höndum og við verðum að leysa húsnæðisvanda hennar svo markmið Stefnumótunar Stórstúkunnar og Regludeilda 2011-2015 nái markmiðum sínum.

Ásm. Fr.