Fundur yfirmanna Rebekku- og Oddfellowbúða á Akureyri

Yfirmenn Oddfellow- og Rebekkubúða ásamt br. stórsír, Stefáni B. Veturliðasyni og str. stórritara, G…
Yfirmenn Oddfellow- og Rebekkubúða ásamt br. stórsír, Stefáni B. Veturliðasyni og str. stórritara, Guðlaugu Björgu Björnsdóttur og br. Magnúsi V. Magnússyni

Laugardaginn 16. október 2010 var fundur yfirmanna Rebekku- og Oddfellowbúða haldinn á Akureyri og var br. stórsír og str. stórritara boðið að sitja fundinn.

Fundurinn var vel sóttur og var m.a. rætt um sameiginleg verkefni búðanna og fræðslumál. Fundarstjóri var Jóhannes Sigvaldason, höfuðpatríarki í Ob. nr. 2, Thomasi á Akureyri og fundarritari Unnur H. Arnardóttir, fyrsti matríarki Rbb. nr. 1, Þórhildar.

 
 

Sigurður G. Símonarson, Jóhann Þórðarson,

Unnur H. Arnardóttir og Jóhannes Sigvaldason

 
  Engilbert Gíslason, Anton Örn Kærnested, Stefán B. Veturliðason,

Stefán Árnason, Magnús V. Magnússon, Katrín H. Karlsdóttir

og Guðrún Árnadóttir

 
  Stefán Árnason, Magnús V. Magnússon, Katrín H. Karlsdóttir

og Guðrún Árnadóttir

 

Patríarki Magnús V. Magnússon, Ob. nr. 1, Petrusi, sem er formaður Ungmennanefndar Oddfellowreglunnar var gestur á fundinum og flutti hann ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2010. Fram kom að starfið hefði gengið vel á árinu. Stærsta verkefni ársins var ársfundur Evrópsku Ungmennanefndarinnar (European Youth Committee (EYC)) sem haldinn var í Reykjavík 19.-20. mars s.l. Á vegum Ungmennanefndarinnar tóku tvö ungmenni þátt í Sameinuðu þjóða verkefninu í ár og er það í annað sinn sem send eru ungmenni frá Íslandi. Hefur framkvæmd við val þátttakenda gengið vel og í þetta sinn var það í samstarfi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Við skólaslit síðastliðið vor var tilkynnt hvaða tveir nemendur fengju þessi sérstöku verðlaun, sem eru tveggja vikna ferð til Bandaríkjanna. Gafst Magnúsi þá tækifæri til að kynna Oddfellowregluna og starf hennar og er það mikil og góð kynning fyrir Regluna þar sem við skólaslit er viðstaddur fjöldi ungmenna og foreldrar þeirra. Þykir þetta sameiginlega verkefni búðanna hafa tekist ákaflega vel og einhugur er um að halda því áfram.

Nefnd búðanna um fræðslumál skilaði skýrslu á fundinum. Umræður nefndarinnar höfðu verið á breiðum grundvelli og var lögð fram tillaga um að almenn fræðsla um Oddfellowregluna og starfið skyldi fara fram í hverri Regludeild. Hins vegar var mælst til þess að Stórstúkustjórn skipaði nefnd sem sæi til þess að viðeigandi fræðsluefni væri aðgengilegt fyrir Regludeildirnar, en nefndin telur að mjög mikið fræðsluefni sé fyrir hendi en nauðsynlegt sé að safna því saman.

Í lok fundarins tók br. stórsír, Stefán B. Veturliðason, til máls. Hann ræddi m.a. um ungmennastarfið sem hann telur mjög jákvætt fyrir Regluna og lýsti hann ánægju sinni með það hversu vel hefði tekist til. Þá upplýsti hann um fyrirætlanir Stórstúkustjórnar m.a. hvað varðar fræðslumál og áform stjórnarinnar um að skipa fræðslunefnd með aðkomu búðanna en undir yfirstjórn Stórstúkustjórnar, en sú hugmynd er í samræmi við niðurstöðu fræðslunefndar sem kynnt var á fundinum. Hann skýrði einnig frá hugmyndum um breytingu á starfi Oddfellowbúða og siðbókum þeirra. Loks sagði hann frá fundi sem hann og str. stórritari áttu með matríörkum í Rebekkubúðafélaginu Melkorku um morguninn vegna fyrirhugaðrar stofnunar Rebekkubúða á Akureyri. Taldi hann þann fund hafa skilað góðum árangri og sagði að ákveðið hefði verið að stefna að stofnun Rebekkubúða á Akureyri í mars eða apríl 2011.

Ekki verður fjallað ítarlegar um fleiri dagskrárliði fundarins en hann þótti hafa tekist vel. Voru fundarmenn sammála um nauðsyn þess að halda slíka samráðsfundi yfirmanna búða árlega og er næsti fundur fyrirhugaður í Hafnarfirði að ári.