Hvl. fyrrum stórsír Geir Zoega borinn til grafar

Hvl. fyrrum stórsír Geir Zoëga andaðist mánudaginn 31. mars 2014 á Landspítalanum. Hann fæddist 20. ágúst 1929 og var því 84 ára er hann lést. Br. Geir vígðist í st. nr. 1 Ingólf 10. apríl 1959 og var hann virkur félagi í Reglunni alla tíð, eða í 55 ár. Bróðir Geir gegndi embætti fyrir Stórstúkuna í samtals 20 ár, og var stórsír í 12 ár, frá árinu 1993 til 2005.
Í minningargrein, sem hvl. stórsír br. Stefán B. Veturliðason, skrifaði í Morgunblaðið segir meðal annars: „Á starfstíma Geirs sem stórsírs hafði á öðrum tíma ekki verið önnur eins uppbygging á starfi Reglunnar. / Geir átti stóran þátt í að breyta stjórnarháttum Oddfellowreglunnar þannig að konur fengu jafnan aðgang að yfirstjórn hennar til jafns við karla. Þetta var eðlilega mikið réttlætismál fyrir konur, en um leið ákvörðun sem var stórt framfaraspor til mikilla heilla fyrir allt starf Reglunnar í dag.“

Minningargreininni lýkur hvl. stórsír með eftirfarandi orðum: „Að leiðarlokum þakka Oddfellowar á Íslandi Geir fyrir samfylgdina og hans miklu og óeigingjörnu störf í þágu Reglunnar. Hann stjórnaði af myndugleika og hann naut trausts og virðingar Reglusystkina sinna, sem völdu hann til æðstu metorða. Hans verður minnst sem eins af okkar fremstu leiðtogum.

Eftirlifandi eiginkonu hans, frú Sigríði E. Zoega, börnum hans og fjölskyldu sendum við einlægar samúðarkveðjur.

Friður sé með sálu hans, friðhelg veri minning hans.“