Leiftursókn við Líknardeild

Hávl. br. stórsír Stefán B Veturliðason Magnús Sædal verkefnisstjóri og Ingjaldur Ásvaldsson form St…
Hávl. br. stórsír Stefán B Veturliðason Magnús Sædal verkefnisstjóri og Ingjaldur Ásvaldsson form StLO
Á laugardagsmorgunn þann 14. janúar  2012, rétt fyrir kl. átta, dreif að húsum  Líknardeildar í  Kópavogi, utan úr náttmyrkri og ausandi rigningu, fjöldi manna, þangað komnir til að hefja vinnu við undirbúning á breytingum og stækkun  Líknadeildarinnar.  Skoða myndir
Þetta voru  Oddfellowar þangað komnir til þess að láta hendur standa fram úr ermum við niðurtekt innréttinga og rif á innréttingum vegna fyrirhugaðra breytinga.  Verkið var hafið án málalenginga og stóðu hendur svo sannanlega fram úr ermum.  Hefur undirritaður sjaldan á 50 ára ferli sínum í byggingariðnaði orðið vitni að annari eins atorku útsjónasemi og fumleysi.
Fóru framkvæmdir fram úr bjartsýnisáætlun verkefnisstjórnar, en í lok vinnudags var búið að leggja varnir á öll gólf sem verja þarf, fjarlægja allar innréttingar og dyrabúnaði sem endurnýta á í húsi nr. 8. og vinna að undirbúningi grófrifs í tengibyggingu.  Það efni sem endurnota á var flutt í geymslur og úrgangur flokkaður í gáma.
Rúmlega 30 manns lögðu fram krafta sína til þessa fyrsta áfanga og tvær Rebekkusystur buðu upp á kaffihlaðborð tvisvar um daginn.  Þar var ekki í kot vísað.
Leiftursókn sem þessi endurspeglar þann kraft og mannauð sem býr í okkar kæru  Reglu.  Hún gerir meira því þessi glæsilega byrjun blæs í brjóst bjartsýni um framhaldið.
Verði undirtektir  Reglusystkina með líkum hætti um næstu helgi getur verkefnisstjórn afhent hús nr. 9 til verktaka og uppbygging 1. áfanga verksins hafist þann 23. janúar.

Í umboði verkefnisstjórnar
Magnús Sædal, formaður.