Nýr áfangi - 4. maí

Ágætu Reglusystkini,

Nú er 4.maí runninn upp, dagur sem margir hafa beðið eftir. Dagurinn þegar fjöldatakmarkanir hafa verið rýmkaðar, fjöldatakmarkanir sem í gildi hafa verið í um það bil einn og hálfan mánuð. Rýmkunin felst í því að nú mega 50 manns koma saman í stað 20 áður. Ekki er um það að ræða að „tveggja metra reglan“ verði felld úr gildi og ennþá eru í gildi tilmæli sóttvarnalæknis um tíðan handþvott og „sprittun“.

Ekki er ólíklegt að við þessar breytingar verði boðað til einhverra funda eða samveru innan Oddfellowreglunnar.  Stjórn Stórstúkunnar lítur svo á að það beri að fara mjög varlega ef  boðað er til  funda eða samveru fyrst um sinn,  og þá verður það að vera mat þeirra sem til slíkra samfunda boða, að ákveða mikilvægi fundarboðsins.

Verði  boðað  til samfunda sem rúmast innan reglna sóttvarnaryfirvalda, þá er enn og aftur brýnt fyrir öllum sem þátt taka í slíkum viðburðum að fara eftir settum reglum varðandi nálægð við aðra fundarmenn og að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Á þessum skrýtnu tímum sem veirufaraldurinn hefur geysað og  samkomubann hefur verið í gildi, hefur nýr og breyttur veruleiki birst okkur  og nú eru fleiri en áður farnir að notfæra sér tölvutæknina til samskipta við annað fólk og á annan hátt en áður.  Regludeildir hafa boðað til fjarfunda sem hafa mælst mjög vel fyrir hjá Reglusystkinum. Með þessum fundum hafa félagar „hist“, náð að spjalla saman og upplifað eins konar nálægð við bræður og systur þrátt fyrir að vera alein við tölvuna heima hjá sér.

Ein af okkar yngstu systrum, Berglind Steinadóttir kom eftirfarandi orðum að ástandinu.

Vinátta, samvera og tryggðarbönd
Mín systkin svo fallega ljóma
Rafrænt við tengjumst nú hönd í hönd
Með hlýhug, kærleika og sóma

Undir venjulegum kringumstæðum væri stúkustarfi að ljúka núna á næstu vikum og við að fara út í vorið. Engir lokafundir eru haldnir þetta vorið, en það verða áreiðanlega fagnaðarfundir í lok sumars þegar við hittumst að nýju. Njótið sumarsins eins og kostur er og förum varlega!

Stjórn Stórstúku