Oddfellowar gefa borginni minningarreit

Gjöf afhent: Dagur Eggertsson, Guðmundur Eiríksson, Magnús Sædal og Guðmundur Þórhallsson við nýjan …
Gjöf afhent: Dagur Eggertsson, Guðmundur Eiríksson, Magnús Sædal og Guðmundur Þórhallsson við nýjan minningarreit um Holdsveikraspítalann.

Framkvæmdum við minningarreit um Holdsveikraspítalann í Laugarnesi er lokið og í gær afhenti Oddfellowreglan á Íslandi Reykjavíkurborg hann að gjöf í tilefni 200 ára stofnafmælis Reglunnar á heimsvísu.

Danskir Oddfellowar gáfu íslensku þjóðinni Holdsveikraspítalann 1898 og skipaði hann stóran sess í þróun læknavísinda á Íslandi. Þar var miðstöð rannsókna í holdsveiki og fyrsti hjúkrunarskóli á Íslandi. Breska setuliðið hertók spítalann um miðjan júlí 1940 og fluttist starfsemin þá í Kópavog.

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi brann síðan til kaldra kola 7. apríl 1943.

Athöfnin í gær var við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellowreglunnar á Íslandi, afhenti Degi B. Eggertssyni borgarstjóra minningarreitinn formlega  og munu borgaryfirvöld taka að sér alla umsjón og umhirðu minningarreitsins til frambúðar.