Oddfellowreglan styrkir myndlistanám barna og unglinga

Frá afhendingu styrkjanna, frá vinstri: Ingvi Þ. Þorsteinsson formaður Lista- og vísindasjóðsnefndar…
Frá afhendingu styrkjanna, frá vinstri: Ingvi Þ. Þorsteinsson formaður Lista- og vísindasjóðsnefndar, Soffía Svavarsdóttir og Helgi Vilberg frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Stefán B. Veturliðason stórsír Oddfellowreglunnar á Íslandi, Ingunn Erna Stefánsd
Oddfellowreglan á Íslandi veitti nýverið styrki til barna- og unglingastarfs í þremur myndlistaskólum, á Akureyri, í Kópavogi og í Reykjavík, samtals að upphæð þremur milljónum króna. Styrkirnir eru veittir úr svonefndum Lista- og vísindasjóði Oddfellowreglunnar, og er styrkveiting til listsköpunar nýbreytni í starfi Oddfellowrglunnar.

Framangreindir myndlistaskólar eru sjálfstæðar menntastofnanir, sem hafa verið starfandi í áratugi og hafa það markmið að veita nemendum þekkingu í hvers konar myndlista- og hönnunargreinum. Skólarnir byggja tilvist sína og starf á breytilegum styrkjum frá ríki og bæjarfélögum,  og á námskeiðsgjöldum nemenda, sem reynt er að halda í  lágmarki til þess að gera sem flestum kleift að taka þátt í náminu.

Við afhendingu styrkjanna, sem fram fór í Oddfellowhúsinu við Vonarstræti í Reykjavík, sagði Stefán B. Veturliðason, stórsír Oddfellowreglunnar á Íslandi, að með þessari styrkveitingu væri Oddfellowreglan að feta sig inn á nýjar brautir í starfsemi sinni, sem fram til þessa hefur einkum beinst að mannrækt og líknarstarfsemi. Kvaðst hann vona að framhald gæti þar orðið á og að styrkirnir kæmu skólunum að góðu gagni. Ingvi Þ. Þorsteinsson, formaður Lista- og vísindastjórsnefndar, sagði við sama tækifæri að ekki þyrfti að fjölyrða um uppeldislegt mikilvægi þess náms, sem myndlistaskólarnir byðu upp á og hversu mikilvægt það væri börnum og unglingum að fá innsýn inn í heim listsköpunar. Því hefði Lista- og vísindanefnd Reglunnar ákveðið að binda styrkveitinguna við þann aldursflokk. Skólastjórar myndlistaskólanna þriggja, Soffía Svavarsdóttir og Helgi Vilberg frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Ingunn Erna Stefánsdóttir og Sigríður Einarsdóttir frá Myndlistaskóla Kópavogs og Ingibjörg Jóhannsdóttir frá Myndlistaskólanum í Reykjavík veittu styrkjunum móttöku með þakklæti og voru á einu máli um að styrkirnir kæmu sér afar vel fyrir starfsemi skólanna.