Oddfellowreglan styrkir uppbyggingu líknardeildar í Kópavogi

F.v. Ingjaldur Ástvaldsson form. StLO, Björn Zoega forstjóri Landsspítala og hávl. stórsír Stefán B.…
F.v. Ingjaldur Ástvaldsson form. StLO, Björn Zoega forstjóri Landsspítala og hávl. stórsír Stefán B. Veturliðason

Oddfellowreglan á Íslandi hefur ákveðið að færa Landspítala að gjöf fyrirhugaðar framkvæmdir við líknardeildina í Kópavogi.   Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð milli Oddfellowreglunnar á Íslandi og Landspítala 5. janúar 2012.

Landspítali hyggst sameina starfsemi líknardeildanna á Landakoti og í Kópavogi með fjölgun rúma í Kópavogi og tryggja með því betur rekstur hennar þar til framtíðar.

Oddfellowreglan á Íslandi hefur verið bakhjarl  uppbyggingar líknardeildarinnar í Kópavogi um árabil. Deildin varð að veruleika 1. ágúst 1997 fyrir tilstilli Oddfellowreglunnar á 100 ára afmæli hennar.  Hún hefur síðan komið með öflugum hætti að stækkun  deildarinnar, opnun dag-  og göngudeildar hennar og gerð kapellunnar þar.

Aðkoma Oddfellowreglunnar nú verður með svipuðum hætti og við þessa fyrri áfanga líknardeildarinnar. Oddfellowreglan á Íslandi, fyrir hönd Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og regludeilda, tekur að sér, í samráði við starfsmenn rekstrarsviðs Landspítala, að framkvæma og kosta nauðsynlegar breytingar á húsi 8 og 9.  Landspítali leggur til hönnun breytinganna og nauðsynlegar framkvæmdir utanhúss.

Í húsi 9 verður legudeild.  Endurinnrétta þarf suðurenda hússins, endurskipuleggja þjónusturýmið og innrétta tengibyggingu sem legudeild.  Áætlaður kostnaður  er 51 milljón króna og  verklok 1. apríl 2012.

Í húsi 8 verður dag- og göngudeild líknardeildar.  Þar þarf að innrétta húsið í samræmi við núverandi aðstöðu í húsi 9.  Kostnaður er áætlaður 50 milljónir króna og verklok 1. október 2012