Rebekkubúðir nr. 3, Melkorka, stofnaðar á Akureyri

Merki Melkorku
Merki Melkorku

Rebekkubúðir nr. 3, Melkorka, voru stofnaðar á Akureyri laugardaginn 2. apríl s.l. Athöfnin fór fram í Oddfellowhúsinu að Sjafnarstíg 3 að viðstöddum fulltrúum úr stjórn Stórstúkunnar, stórembættismönnum og fulltrúum frá öðrum Rebekkustúkum og -búðum á landinu.

Rebekkubúðafélagið Melkorka var stofnað 6. febrúar 1988 og hafði því starfað í rúm 23 ár. Því þótti tími til kominn að stíga skrefið til fulls og stofna Rbb. nr. 3, Melkorku og var  stofnfundurinn  haldinn kl. 16.00, laugardaginn 2. apríl 2011, í Oddfellowhúsinu á Akureyri. Að lokinni stofnun búðanna og innsetningu embættismanna var móttaka, þar sem nýju búðirnar buðu upp á léttar veitingar, að viðstöddum fjölmörgum gestum.

Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í Regluheimilinu á Akureyri og voru þá afhentar gjafir, en búðunum bárust margar góðar gjafir af þessu tilefni. Ennfremur var boðið upp á skemmtidagskrá, sem matríarkar í hinum nýju búðum sáu um, auk þess sem ung stúlka söng við gítarundirleik.

 Ný stjórn Rbb. nr. 3, Melkorku, er skipuð matríörkunum Kristínu Tómasdóttur, hm., Hallfríði Einarsdóttur, 1.matr., Þórönnu Þórðardóttur, æp., Hrefnu H. Hagalín, bók., Sigríði Whitt, gjk. og Sigrúnu Helgadóttur, rh. Starfandi fyrrum höfuðmatríarki er Dórothea J. Eyland.

Segja má að skammt sé stórra högga á milli í Reglustarfinu á Akureyri, en laugardaginn 26. mars sl. voru stofnaðar þar tvær nýjar Regludeildir, Rbst. nr. 16, Laufey, og St. nr. 25, Rán.