Skemmtikvöld í þágu Líknardeildar LSH í Kópavogi

Bítladregngir Baldurs
Bítladregngir Baldurs
Seinni hluta liðins árs kviknaði sú hugmynd meðal bræðra í St. Nr. 20 Baldur IOOF að efna til samkomu í því skyni að leggja góðu málefni lið

Hljómsveit Baldursbræðra hefur verið starfandi um margra ára skeið og m.a. komið fram á samkomum Baldurs. Hugmyndin var að hljómsveitin efndi til tónleika til styrktar Líknardeild LSH í Kópavogi, sem gæti orðið góð viðbót við það sem þegar er hafið undir merkjum Oddfellowreglunnar. Hugmyndin hefur undið upp á sig og hefur nú verið ákveðið að efna til skemmtikvölds í Háskólabíói – „Bítlakvölds“ - laugardaginn 3. mars n.k. kl. 20:00.

 
 Drengjakór Þorfinnsbræðra
 
 Geir Jón tekur (bítla)lagið

Strax í upphafi var tekin sú ákvörðun að kynna verkefnið aðeins innan Oddfellowreglunnar og sömuleiðis að selja miða á þessa skemmtun eingöngu meðal reglusystkina.

Á skemmtuninni munu reglubræður leika og syngja Bítlalög, ásamt Drengjakór St. Nr. 10 Þorfinnur Karlsefni, stúlknakvartett tekur bítlalög, auk þess sem stiklað verður á stóru í sögu Bítlanna. Reglubræður sem gerðu garðinn frægan á síðari hluta liðinnar aldar með bestu hljómsveitum þess tíma, rifja upp gamla takta, segja sögur, grípa í hljóðfæri eða taka lagið með sínu nefi. Auk þess koma að skemmtuninni vel þekktir og minna þekktir söngvarar og hljóðfæraleikarar sem tengjast reglubræðrum með einum eða öðrum hætti. Síðast en ekki síst má nefna að „lengsta lögga landsins“ Geir Jón Þórisson, tekur lagið.

Umfram allt er ætlunin að gestir sem sækja skemmtunina í Háskólabíói, taki hraustlega undir í söng og skemmti hver öðrum.

Reynt hefur verið eftir föngum að stilla öllum kostnaði í hóf og fjöldi reglusystkina og velunnarar Líknardeildar LSH hafa þegar lagt verkefninu lið með fjárframlögum. Það er markmið okkar sem að verkefninu stöndum að miðasalan gangi óskipt til verkefnisins, búið verði að safna fjármunum fyrir öllum kostnaði sem til fellur vegna skemmtunarinnar.

Ekki þarf að taka fram að allir sem að skemmtuninni koma, gefa vinnu sína. Hins vegar fellur til húsaleiga, leiga á ýmsum tækjabúnaði o.s.frv.

Miðaverði er stillt í hóf, miðinn kostar kr. 3.500 og er miðasala hafin á vefnum www.skemmtun.oddfellow.is