Stórsíra fundur í Eyjum.

Á föstudeginum var farið frá flugstöðinni beint á Eyrarbakka og notaleg  kvöldstund hófst með kynningu Siggeirs

Ingólfssonar á Eyrarbakkakirkju og síðan var borðað hjá Rauða húsinu. Þá var haldið að Forsæti í Flóa og glæsilegt listasafn, Tré og list skoðað undir leiðsögn Ólafs Sigurjónssonar. Þá var komið við á Þorvaldseyri, safnið þar skoðað og fór Ólafur Eggertsson yfir sögu staðarins og sýndi að því loknu kvikmynd um Eyjafjallagosið. Ljóst var að sú stund hafði mikil áhrif á okkar erlendu gesti. Gist var að Hótel Skógum í glæsilegu umhverfi.

Laugardagurinn hófst á siglingu til Eyja frá Landeyjarhöfn. Stórsírafundurinn fór fram í Regluheimilinu Herjólfsbæ og var tvískiptur laugardag og sunnudag. Fundurinn tókst vel og góðri vinnu skilað eins og stefnt var að. Farið var í skoðunarferð um Heimaey undir leiðsögn Gísla Óskarssonar, móttaka Reglusystkina í Eyjum var í nýju safni Eldheimum sem vakti mikla ánægju gestanna. Þá var minnisvarði um Regluheimilið að Heimagötu 25 skoðað en heimilið fór undir hraun 27. mars 1973. Eina Regluheimili Oddfellowa í veröldinni sem hefur orðið náttúruhamförum að bráð. Stórsíranir voru leystir út með glæsilegri gjöf til minningar um fundinn í Eyjum og sem þakklætisvott fyrir stuðning við Reglustarfið í Eyjum við uppbygginguna eftir Heimaeyjargosið 1973. Um kvöldið var siglt um Eyjasund og kvöldverður reiddur fram í Klettshelli undir lifandi tónlist og fuglasöng. Óhætt er að segja að siglingin og umhverfið hafi verið áhrifaríkasti hluti ferðarinnar og veðrið lék við ferðalangana.

Sunnudagurinn var engu síðri en ferðin endaði með köldu borði í veiðafærakró hjá Danska Pétri og heimsókn í Sagnheima í Eyjum þar sem safnstjórinn Kári Bjarnason í fjarveru bæjarstjórans Elliða Vignissonar færði stórsírunum bókagjöf frá Vestmannaeyjabæ sem þakklætisvott fyrir aðkomu Norrænna Stórstúkna að uppbyggingunni í Eyjum eftir gos með aðstoð við Reglustarfið í Eyjum.

Á heimleiðinni var komið við hjá str. Sigurlín Sveinbjarnardóttur í Fljótshlíð, ekkju Gylfa Gunnarssonar fv. stórsír og Jónsbær skoðaður og veitingar þegnar. Ferð stórsíranna til Íslands að þessu sinni var því í senn árangursríkur fundur um framtíð Reglustarfsins í Evrópu og ekki síður skemmtileg fróðleiksferð um söguslóðir og fallega náttúru eins og best gerist á Íslandi.

Ásm. Fr.