Styrktar- og líknarsjóður kynnir deiliskipulagsáform Urriðavatnsdala

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa hefur opnað vefsíðuna urridavatnsdalir.is til að kynna áform um deiliskipulag svæðisins og friðlýsingu fólkvangs.

Sjóðurinn hefur unnið í samvinnu við Garðabæ að skipuleggja einstakt útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum, en landsvæðið er í eigu sjóðsins. Sameiginlegur vilji er fyrir því að stefna að því að friðlýsa Urriðakotshraun í þessari skipulagsvinnu sem fólkvang, en það er hluti Urriðavatnsdala.

Með tillögu að nýju deiliskipulagi er verið að festa svæðið í sessi sem fjölbreytt og aðlaðandi útivistarsvæði. Með friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvang samhliða deiliskipulagsvinnunni er stuðlað að vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags.

Urriðakotshraun yrði fyrsti friðlýsti fólkvangurinn hér á landi í einkaeigu.

Samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum er fyrirhugað að leggja þrjár nýjar golfbrautir sem verða hluti af Urriðavelli á grónum hraunflötum í Urriðakotshrauni framhjá og innan við tignarlegan hraunjaðarinn. Um leið skapast gott rými fyrir endurbættan útivistarstíg samhliða golfbrautunum. Þessar framkvæmdir verða hluti af stækkun Urriðavallar úr 18 í 27 holur.

Ítarlegar upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðunni og verður hún uppfærð eftir því sem verkefninu vindur fram.