Ungmennastarf Oddfellowreglunnar 2019

Ungmennastarf Stórstúku Evrópu,  European youth tour 2019, fór fram dagana 15. til 20. júlí sl. Sem fyrr tóku þátt ungmenni á aldrinum 16 -17 ára, frá öllum Norðurlöndunum, alls rúmlega 40 talsins.  Ungmennin söfnuðust  saman  á Íslandi þar sem þáttakendur frá Íslandi bættust í hópinn.


Til að velja ungmenni í ferðina er samið við enskukennara þess framhaldsskóla þar sem ungmennin stunda nám. Verkefni er lagt er fyrir nemendur sem tengist starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Valin eru svo  10  bestu verkefnin en allt ferlið fer fram á ensku. Valnefnd sem skipuð er félögum í Oddfellowreglunni, tekur viðtöl við þessa 10 nemendur og velur á endanum tvo úr hópnum. Í viðtölunum er farið yfir ýmsa þætti  með nemendunum s.s. fjölskylduhagi, áhuga á ferðinni og vilja til að gera skýrslu  og kynningu fyrir Oddfellowa að ferð lokinni. Þátttakendur fyrir hönd Íslands, að þessu sinni voru þau þær Bergey Gunnarsdóttir og Svala Rún Sigurðardóttir frá Fjölbrautarskóla  Suðurnesja.

Hópurinn heimsótti marga minnisstæða  staði á Íslandi s.s. Þingvelli, Gullfoss, Geysi, Bláa lónið og fleir staði. Þá fékk hópurinn fræðslu um jarðvarma og nýtingu hans hér á landi. 

Hópurinn snæddi hádegisverð í Vonarstræti 10 í boði stjórnar Stórstúku Íslands þar sem Oddfellowreglan var kynnt og fengu ungmennin einnig kynningu á Oddfellowhúsinu í Vonarstræti.

Frá Íslandi hélt svo  hópurinn til Bandaríkjanna. Haldið var til New York þar sem helstu  staðir voru heimsóttir en lauk með hápunkti ferðarinnar sem að venju var heimsókn til höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York.  Þá var haldið til Washington, þar sem skoðaðir voru áhugverðir staðir en þaðan héldu þátttakendur hver til síns heima eftir velheppnað ferðalag til íslands og Bandaríkanna.

Ljóst er að ávinningur af verkefni sem þessu, er mikill fyrir Oddfellowregluna. Einn þáttur er sá að vera þáttakandi í samstarfsverkefni Oddfellowa í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá  skal ekki gert lítið úr því að ungmenni kynni sér mikilvægt hlutverk Sameinuðu þjóðanna og um leið hinar háleitu hugsjónir Oddfellowreglunnar. Oddfellowreglan fær óbeina og mjög jákvæða kynningu í skólum og hjá fjölskyldum þátttakenda.  Öll þau ungmenni sem tekið hafa þátt í þessu starfi,  hafa hlotið ómetanlega reynslu í þessum ferðum og hafa myndað langvarandi kynni sem ekki er vafi á að mótar framtíð þeirra.

Í undirbúningsnefndinni  á íslandi sitja þau Ása Kristín Margeirsdóttir og Baldvin Valdimarsson.  

Lesa má um ævintýri ungmennanna á heimasíðu norsku Oddfellowreglunnar.

Þá gerðu nokkur ungmennanna myndband um ferðalagið sem skoða má hér.