Vel heppnuð bítlaskemmtun Baldursbræðra

Bítlaskemmtun Baldursbræðra og fjölmargra annarra Oddfellowa sem fram fór síðastliðið laugardagskvöld undir yfirskriftinni "Þroskaðir Bítlar" tókst með afbrigðum vel. Yfir 700 manns sóttu skemmtunina í Háskólabíói, að stærstum hluta voru það Oddfellowar, bræður og systur úr regludeildum um land allt. Sama hvert litið er, hljómsveitin gerði stormandi lukku, líkt og Drengjakór Þorfinns Karlslefnis og stúlknatríóið. Salurinn hins vegar ærðist þegar sjálfur Baldur steig á svið, en hann er betur þekktur sem Ragnar Bjarnason.   

Bítlaskemmtun Baldursbræðra og fjölmargra annarra Oddfellowa sem fram fór síðastliðið laugardagskvöld undir yfirskriftinni "Þroskaðir Bítlar" tókst með afbrigðum vel. Yfir 700 manns sóttu skemmtunina í Háskólabíói, að stærstum hluta voru það Oddfellowar, bræður og systur úr regludeildum um land allt. Sama hvert litið er, hljómsveitin gerði stormandi lukku, líkt og Drengjakór Þorfinns Karlslefnis og stúlknatríóið. Salurinn hins vegar ærðist þegar Baldur steig á svið, en hann er betur þekktur sem Ragnar Bjarnason.

Myndir frá skemmtikvöldinu má sjá hér

Hugmyndin að skemmtikvöldinu kviknaði seinni hluta liðins árs meðal bræðra í St. Nr. 20 Baldur IOOF en hún vatt fljótt upp á sig.

Upphaflega ætlaði hljómsveit Baldursbræðra, sem hefur verið starfandi um margra ára skeið, að efna til tónleika til styrktar Líknardeild LSH í Kópavogi. Það gæti orðið góð viðbót við það sem þegar er hafið undir merkjum Oddfellowreglunnar. Fljótlega var ákveðið að kalla fleiri tónlistarmenn til og að auki kór, og fleiri söngvara. Þá sá Hulda Ólafsdóttir um sviðsstjórn og Jón Þórisson sá um sviðsmynd og útlit.

Ánægjulegt var að sjá hve mörg reglusystkin sáu sér fært að mæta á skemmtunina og ekki síður hve margir af æðstu embættismönnum reglunnar mættu til leiks. Þeirra á meðal var stórsír, Stefá B. Veturliðason en hann steig á svið og þakkaði framtakið. Losk var einkar ánægjulegt að sjá hve starfsfólk Líknardeildar LSH í Kópavogi mætti vel.

Hljómsveit bræðra úr St. Nr. 20 Baldri sem kom fram og flutti Bítlalögin er skipuð þeim Gunnari Gröndal sem lék á bassa, Gunnari Þ. Guðmannssyni sem lék á trommur og slagverk, Hermanni Gunnarssyni sem lék á gítar og söng og Hermanni Ástvaldssyni sem sá um söng. Að auki komu fram með hljómsveitinni söngvarinn Sveinn Guðjónsson skrifstofustjóri Oddfellowreglunnar og bróðir í St. Nr. 11 Þorgeir, en Sveinn gerði garðinn frægan á árum áður með Roof Tops. Birgir Ingimarsson úr St. Nr. 19 Leifur Heppni lék á trommur og tilfallandi slagverk, Úlfar Sigmarsson hljómborðs- og harmonikkuleikari úr St. Nr. 21 Þorlákur Helgi var einnig á sviðinu áamt "litla" bróður sínum, Kristni Sigmarssyni gítarleikara en þeir bræður þekkja flestir úr Pónik og Meyvant Þórólfsson lék á gítar og söng.

Drengjakór St. Nr. 10 Þorfinnur Karlsefni söng þrjú lög; "Ticket To Ride", "Here, There And Everywhere" og "With A Little Help From My Friend" en stjórnandi kórsins er Katalin Lorincz.

Stúlknatríó flutti lögin "Because" og "Michelle" en tríóið skipa þær Hildigunnur Einarsdóttir, Björg Þórsdóttir og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.

Það var vel við hæfi að stórsöngvarinn Ragnar BALDUR Bjarnason, hnýtti endahnútinn á þessa bráðskemmtilegu kvöldstund Oddfellowa en Raggi Bjarna söng "Yesterday".

Í lok skemmtunar reis salurinn á fætur og tók undir með öllum sem fram komu á skemmtuninni í lokalaginu "All You Need Is Love".

Viðtökur við þessu óvenjulega og djarfa verkefni Baldursbræðra voru framar vonum og næsta víst að þær verða hvatning til frekari góðverka af sama toga. Framtakið hefur spurst út og hafa borist óskir um að hluti af skemmtuninni eða skemmtunin í heild verði flutt bæði norðan heiða og sunnan.

Fyrir hönd verkefnastjórnar skemmtunarinnar færi ég bestu þakkir öllum sem komu fram, sóttu skemmtunina og ekki síður þeim sem lögðu málefninu lið með vinnu eða beinum framlögum.

Þröstur Emilsson, St. Nr. 20 Baldur